Hagnýtar upplýsingar um 240 tíma jógakennaranám

Markmið jógakennaranámsins

Í upphafi námsins eru verðandi jógakennurum skapaðar aðstæður út í sveit, fjarri amstri daglegs lífs, þar sem þeir ná einingu við jóga, lifa það og nota til umbreytingar á gömlum hindrunum í líkama, tilfinningum og huga. Þannig læra nemendurnir að kenna jóga á þann hátt að það hafi umbreytandi áhrif á nemendur þeirra, líkamlega, tilfinningalega og hugrænt. Mikilvægt er að þeir fái eins ítarlega þjálfun og unnt er til að halda utan um nemendurna á því ferli umbreytingar sem jógaástundun er.

Markmiðið er að verðandi kennarar læri að gera greinarmun á leikfimi og jóga ástundun. Námið er ekki aðeins líkamleg nálgun á jógafræðin. Jóga vinnur með alla eðlisþætti okkar, það er „inn á við” ferli sem skapar okkur tækifæri til að stíga út úr huganum og inn í hjartað okkar. Viskan býr hið innra. Allt sem við þörfnumst kemur innan frá. Leiðin að bættri líðan, betri heilsu og aukinni hamingju er innávið. Jóga ástundun snertir alla þætti lífs okkar til blessunar.

Lögð er mikil áhersla á sjálfsvinnu í náminu í gegnum yömurnar, hugleiðslu og jógaástundun.

Námið er rúmlega 240 tímar og miðast við kröfur Yoga Alliance um 200 tíma kennslu fyrir jógakennararéttindi að viðbættum tímum í tilfinningavinnu og sjálfsvinnu sem Kristbjörg telur mjög mikilvægt að jógakennari hafi farið í gegnum áður en hann fer að vinna með aðra.

Þetta er afar fræðandi og skemmtilegt nám, um leið og það er mjög andlega gefandi fyrir kennaranemann þá er það afar gefandi og þroskandi fyrir persónuna líka. Fjölskyldur nemanna njóta einnig góðs af vexti þeirra.

Hægt er að vera með í hluta A til að njóta fyrri hluta námsins, eða rifja upp jógafræðin. Allir sem vilja gefa sér stórkostlega gjöf, líkamlega og andlega, munu njóta þess að vera með okkur. Skylda er þó að taka þátt í öllu sem kennaranemarnir fara í gegnum þennan tíma.


Kennsluskipulag

A) 7 – 10 daga grunnnámskeið út í sveit
B) 4 – 5 daga áframhaldandi grunnnámskeið út í sveit

Dvalið er út í náttúrunni, fjarri veraldlegu lífi, við ástundun, lærdóm og hugleiðslu í kyrrð og ró. Hver dagur hefst með jógatíma kl. 6.00.

Námsefni hluta A og B er m.a.: Rajajóga (hið konunglega jóga), Asthanga og Hatha jóga, Bakti og Karma jóga, pranayama (öndunaræfingar), yömur, niyömur, pratyahara (að draga athyglina inn á við), dharana (að beina athyglinni), dhyana (hugleiðsla), kennslufræði, yoga nidra (slökun), listin að setja saman jógastöður og jógatíma, japa, jóga sem sjálfsvinnutæki, líkamsfræði (anatomia), orkuanatomia (orkustöðvar og flæði orkunnar), heilsa, mataræði og lifnaðarhættir, upphitunaræfingar, kennslutækni, kennslufræði og þjálfun í að elska sjálfan sig og nemendurna til fulls. Þetta allt og ýmislegt fleira er kennt. Farið er mjög nákvæmlega í hverja grunn stöðu fyrir sig.

C) Kennsluþjálfun og áframhaldandi nám fram að útskrift.

Hluti C samanstendur af þjálfun í kennslu undir leiðsögn, kennslutækni, framhald í kennslufræðum, gnana jóga, hópvinnu, jógaástundun með Kristbjörgu og fleira.

 • Æfinga jógatímar eru á mánudögum kl. 18.00 – 19.30 í Ashutosh Ashrami, Dalbrekku, nema annað sé tekið fram. Nemar kenna oftast fyrst og svo tekur Kristbjörg við.
 • Jóga með Kristbjörgu kl. 6.00 á miðvikudagsmorgnum til kl. 7.35.
 • Fimmtudagskvöld kl. 18.00 – 20.00 fer fram kennsla á sama stað.
 • Hægt er að vera á Zoom fyrir þá sem búa úti á landi eða erlendis ef nauðsyn krefst.

D) Heimaverkefni

 • Nemendur þurfa að skila 20 æfingatímum til Kristbjargar, þ.s. nemar gera jógatíma og kenna hann einum eða fleirum sem kvitta svo fyrir æfingakennsluna. Blöðum skilað til Kristbjargar.
 • Ritgerð um yömu eða niyömu að eigin vali, í það minnsta 2 A4 síður.
 • Styttri samantektir úr Yoga Sutrum Patanjails.
 • Heima lestur.
 • Heima ástundun: Daglega, 1 jógastaða lesin í kennaramöppu og skoðuð í Anatomíu bók og því næst gerð eftir textanum nokkrum sinnum. 15 mín öndunaræfingar eftir prógrammi. Önnur ástundun  bætist svo við á tímabilinu.

E) Útskrift

Miðað að útskrift í lok október á haustönn og maí á vorönn. Afhending skírteina fer fram við útskriftarathöfn að því gefnu að nemandi hafi uppfyllt þau skilyrði sem skólinn setur og skilað öllum verkefnum tímanlega.


Greiðslufyrirkomulag

Námið kostar staðgreitt í upphafi náms 507.000 kr. Þá er allt innifalið í þessu verði. Fæði og húsnæði í lotum, öll kennsla, kennaramappa, blómadropar, einkatími með kennara og ýmislegt fleira. Neminn þarf að kaupa 2 bækur sjálfur á netinu.
Hægt er að skipta upp greiðslum og greiða t.d. mánaðarlega ákv. upphæð. Lokagreiðsla skal þó fara fram áður en náminu líkur. Þá er samið sérstaklega við Kristbjörgu og gerð greiðsluáætlun.
Stéttarfélögin styðja gjarnan félagsmenn í þetta nám.

Við skráningu er greitt 30.000 kr af heildar upphæð inn á 137 26 4403, kt 440302 2460. Staðfestingargjaldið er óafturkræft en getur gengið upp í önnur námskeið á sama ári.


Bókakaup

Þessar tvær bækur er nauðsynlegt að kaupa:

 1. Yoga Sutras of Patanjali by Swami Satchidananda
 2. Anatomy of Yoga by Dr. Abigail Ellsworth: An Instructor’s Inside Guide to Improving Your Poses

Um Kristbjörgu

Auk þess að vera upphaflega menntaður Kripalu jógakennari frá Kripalu Center, hefur Kristbjörg hlotið fjölbreytta þjálfun á Indlandi, m.a. í Jnanajóga, Karmajóga, Bhaktíjóga, Asthangajóga/Rajajóga, Hathajóga, Contactjóga og Kundalini hugleiðslu. Frá árinu 2007 hefur hún verið í víðfeðmu jóganámi undir handleiðslu jógameistarans Sri Swami Ashutosh Muni. Í því námi hefur hún kafað í Bhagawat Gita og Yoga Sutrur Patanjali og lært að lesa þær sem leiðarvísi að leiðinni „heim“.

Kristbjörg er Náttúrulæknir frá School of Natural Medicine: lithimnufræðingur, jurtagræðari, heilbrigðisfræðingur, blómadropafræðingur og hefur hún framleitt blómadropa í yfir 30 ár sem fást í heilsubúðum á Íslandi og víðar.

Einnig hóf hún lífræna ræktun á austurlandi 1979 og starfaði sem bóndi í um 20 ár.

Kristbjörg hefur kennt jóga í rúm 30 ár. Hún heldur reglulega jógakennaranámskeið og ýmis konar umbreytandi helgarnámskeið með jóga, dansi, hugleiðslu og blómadropum, hér heima sem og erlendis. Hún kennir Hugleiðslu og jógaheimspeki í Háskóla Íslands á hverju misseri, er með jógahópa sem eru að kafa dýpra í Bhagawat Gita og jóga heimspekina. Einnig fer hún með hópa til kennarans síns, Bapuji til að nema af honum og kenna þau gjarnan saman.

Jógað sem hún kennir kallast Ashutosh jóga. Það kemur úr uppsprettu alls jóga þar sem hin jógísku frumfræði fá að njóta sín og byggir á hinu fornu leiðum Raja jóga og Hatha jóga. Ashutosh jóga þýðir í raun leiðin til hugljómunar. Hún styðst við Yoga Sutrur Patanjalis sem gefa djúpa mynd af frumfræðum jógavísindanna. Sutrurnar eru skráðar í þjöppuðu kóðuðu máli sem jóginn lærir að opna með eigin ástundun og í samræmi við þá dýpt og skilning sem hann öðlast á vísindum lögmála lífsins með tíð og tíma.

Jóga ástundun hjálpar einstaklingnum m.a. að skilja lögmál náttúrunnar, hina ytri náttúru sem og innri lögmálin og nálgast þau á vísindalegan hátt með jógískri ástundun. Þannig skapar jóginn með sér samræmi og einingu við lögmál lífsorkunnar hið innra. Pranan – lífsorkan eykst jafnt og þétt og þannig opnast upp lyklarnir að leyndardómum vísinda anda og efnis.

Ashutosh jóga er ekki kennt við eitthvað einstakt af hinni miklu jógísku leið. Það er öll leiðin og gæti heitið t.d. kærleiks jóga, prönu jóga, kundalini jóga (því allt jóga leiðir að vöknun kúndalini, móður orkunnar, að lokum og þess vegna er allt jóga kúndalini jóga). Ashutosh jóga merkir leiðina að uppsprettu alls sem er, leiðina sem hver og einn þarf að ganga til að öðlast vitund um sitt innsta eðli.

Comments are closed.