Kraftur náttúrunnar

kraftur natturunnar

Íslensk náttúra hefur löngum verið rómuð fyrir fegurð sína, hreinleika og fjölbreytileika, óbeislaða náttúrukrafta og unaðslegar dásemdir sínar. Við sem höfum alist upp í íslenskri náttúru, leikið okkur sem börn í klettum og gjótum, móum og grónum brekkum, fjallendi sem dalverpi, við ár og læki, í fjöruborðinu og jafnvel sótt sjó með þeim fullorðnu, erum vel kunnug töfrum og krafti náttúrunnar, blíðu hennar og hörku.

 

Ég hef verið óendanlega blessuð með að hafa fengið að tengjast þessum sterka frumkrafti náttúru Íslands sem barn og tengst náttúrunni og landinu sterkum kærleiks böndum. Í gegnum tenginguna við náttúruna hefur mér gefist kostur á að hlusta á skilaboð hennar til okkar mannanna og hún hefur kennt mér á sinn hátt hverning hún getur hjálpað okkur til meira jafnvægis og friðsældar.

Eitt af því sem hún kenndi mér í upphafi var að við mennirnir erum hluti af náttúrunni, við þurfum á henni að halda, bæði nálægð við hana og ávexti hennar sem fæðu og til lækningar líkama og sálar. Allir vita hvað það er ómetanlegt að vera í ósnortinni náttúru okkar, hve endurnærandi og uppbyggjandi það er að ganga um landið, dást að því kyngimagnaða kraftaverki sem náttúra Íslands er og drekka í okkur orku hennar og blessun.

Hún hefur bæði kennt mér um blómadropana, hvað þeir gera og hvernig blómadropar færa okkur þennan kyngimagnaða kraft, og einnig hefur hún hjálpað mér að skilja betur hve mikilvægt það er að sinna andlegu hliðinni sinni til að skapa jafnvægi og heilbrigði í líkamanum. Náttúran vinnur eftir lögmálum alheimsins eins og andi okkar og þegar maður skilur náttúrna þá skilur maður andann sömuleiðis. Einhvers staðar stendur skrifað “svo hið neðra sem hið efra”.
Megi náttúra okkar fallega lands haldast hrein og tær, megi okkur mönnunum auðnast að virða og varðveita okkar fögru móður jörð. Göngum í friði kærleikans.

Comments are closed.