Jógaleiðin

Jógaleiðin, „leiðin heim“, liggur í gegnum hjarta sérhvers manns og á því ferðalagi leitum við eftir jafnvægi og heilun á eigin eðlisþáttum, lífi og líðan. Ferðalagið sjálft er afar mikilvægt. Það getur verið dásamlegt ævintýri eða þrautaganga, og fer það eftir því með hvaða augum við horfum á líf okkar og það sem hendir okkur á lífsleiðinni.

Hin sterka þrá einstaklingsins til að skilja sjálfan sig og lífið og til að kynnast því hver hann er í raun og veru, rekur hann til að leita leiða til að finna svörin við hinum aldagömlu spurningum: Hver er ég? Hvaðan kom ég? Hver er tilgangur lífs míns?

Leitin að svörum við þessum spurningum leiðir okkur inn á nýjar brautir eins og til dæmis jógaleiðina. Jógaleiðin er andleg leið sem gefur okkur skilning á þeim nauðsynlegu frum elementum sem skapa jafnvægi í lífi okkar svo hægt sé að kafa dýpra eftir svörum hinna stóru spurninga. Einnig gefur jógaleiðin okkur verkfærin til að vinna með. Þessi verkfæri leiða okkur dýpra og dýpra að kjarna tilveru okkar.

Allir þrá að finna jafnvægi og öðlast varanlega hamingju í lífi sínu. Í nútíma samfélagi erum við táldregin til að leita að þessari hamingju fyrir utan okkur, en þar munum við aldrei finna hana því hún er okkar innra hugarástand, tilfinningaástand og sálarástand. Raunveruleg hamingja og friður búa hið innra og jógaleiðin gefur okkur þá tækni og þekkingu sem þarf til að nálgast þetta vitundarástand sem sönn hamingja og friður er.

Jógaleiðin er leiðin heim í kjarnann okkar þar sem eining getur átt sér stað. Leiðin hefst gjarnan á að skapa jafnvægi og heilun fyrir líkamann, koma honum í jafnvægi og heila hann eftir bestu getu. Því næst komum við jafnvægi á og heilum tilfinningar okkar og hugsanamynstur. Þá finnum við leið til að heila samskiptin við fjölskyldu okkar og umheiminn, við leitum eftir jafnvægi við ytri heiminum sem og innri veruleika okkar.

Lífið gefur okkur frábært tækifæri til þess að lifa andlegu lífi í efnislegum heimi þar sem lægri hvatir eins og græðgi og ótti leita okkur uppi aftur og aftur. Að lifa fallegu lífi í þessum heimi er áskorun fyrir jógann. Að taka þátt í daglegu lífi og sinna skyldum sínum gagnvart sjálfum sér, fjölskyldu sinni og samfélagi er honum afar mikilvægt til að öðlast þroska, hlutleysi og umburðarlyndi gagnvart hinu forgengilega.

Á jógaleiðinni ræktar jóginn kærleikann í garði hjarta síns. Hann veit hvenær kærleikurinn þarf að vera blíður og eftirgefanlegur og hvenær ákveðinn og fastur fyrir. Hann leitar eftir því að finna sinn eigin kjarna og uppsprettuna sem hann kemur úr  innra með sér. Leiðin heim liggur í gegnum hjarta hvers manns. Hver og einn verður að ganga sína eigin leið, læra sínar lexíur á leiðinni og finna sinn flöt á sannleikanum.

Elsku sála. Megir þú finna þína leið. Megir þú vera blessuð með ljósvitum þeirra sem á undan hafa gengið og megir þú finna rödd þíns eigin hjarta.

„Om namo bhagawate vasudevaya“

Kristbjörg Kristmundsdóttir

Comments are closed.