Kristbjörg

kristbjörg

Kristbjörg Elín Kristmundsdóttir, jógakennari og blómadropafræðingur, er konan að baki Jóga og blómadropaskóla Kristbjargar, en þar miðlar hún af þekkingu sinni um jógafræðin og þá krafta sem búa í náttúrunni.

Kristbjörg hefur ætíð haft áhuga á öllu sem byggir upp líkama, sál og líf einstaklingsins og samfélagsins. Jógafræðin urðu henni hugleikin strax í barnæsku sem og nýting jurta til lækninga og matar. Listin að lifa í samræmi við lögmál náttúrunnar er hennar aðaláhugamál;  að læra að þekkja lögmál efnis og anda og hvernig við getum nýtt náttúruna öðrum og okkur sjálfum til blessunar.

Kristbjörg er fædd og uppalin í vesturbæ Reykjavíkur en flutti ung að aldri austur á Fljótsdalshérað og gerðist bóndi. Þar bjó hún í tuttugu ár með kýr og kálfa og ræktaði lífrænt grænmeti ofan í fjölskyldu sína. Á þessum tíma byggðu þau hjónin upp lífræna framleiðslu í Vallanesi og seldu vörur sínar undir merki Móður Jarðar.

Frá ellefu ára aldri lærði Kristbjörg allt um jóga sem hún komst yfir en byrjaði síðan að kenna vinum sínum jóga á Egilsstöðum árið 1987. Það varð til þess að hún lagði land undir fót og náði sér í jógakennararéttindi 1992 frá Kripalu Center Massachusetts. Tveimur árum síðar var hún komin í vöggu jógavísindanna á Indlandi í dýpra nám. Síðan þá hefur hún sótt jóganámskeið út um allan heim og  dvalið reglulega við lærdóm og ástundun, m.a. á Indlandi og í Bandaríkjunum.

Kristbjörg er og verður alltaf nemandi í jógavísindunum og andlegur leitandi á  „leiðinni heim“. Fyrir tæplega tíu árum  var Kristbjörg svo blessuð að hitta núverandi kennara sinn, Swami Sri Ashutosh Muni, en hann var vígður inn á jógaleiðina 19 ára gamall af sínum kennara. Muni er jógamunkur sem hefur helgað líf sitt rannsóknum á hinum fornu Vedísku ritum og eigin jógaástundun. Í dag kennir hann nemendum sínum þessi lifandi fræði með því að gefa þeim lyklana að hulinni visku þeirra svo nemendurnir geti sjálfir opnað upp skilning sinn, miðað við hæfni sína hverju sinni.

Á síðustu árum hefur hluti framhaldsnáms í Jóga og blómadropaskóla Kristbjargar farið fram í Bandaríkjunum þar sem Kristbjörg og kennari hennar hafa kennt saman hin fornu fræði jógavísindanna.

Kristbjörg er einnig menntaður lithimnufræðingur og naturopath frá School of Natural Medicine í Bolder í Bandaríkjunum, auk þess að hafa árum saman unnið að því að búa til og þróa íslenska blómadropa undir handleiðslu náttúrunnar sjálfrar.

Í dag er Kristbjörg þriggja barna móðir og amma fjögurra dásamlegra barna. Hún býr rétt utan við Reykjavík og bóndinn í henni er ekki langt undan þar sem hún er með býflugnabúskap, ræktar jörðina og iðkar sitt jóga í náttúrunni.

Comments are closed.